Innlent

Hátekjuskattur leggst ekki á hjón heldur einstaklinga

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Hátekjuskatturinn leggst ekki á hjón heldur einstaklinga. Því geta hjón með tæplega fjórtán hundruð þúsund krónur í mánaðartekjur sloppið við hátekjuskatt á meðan hjón undir milljón í sameiginlegar tekjur geta þurft að greiða hátekjuskatt.

Þeir sem fá fyrirframgreidd laun og eru með yfir 700 þúsund krónur í tekjur á mánuði byrja að greiða hátekjuskatt á morgun. Hátekjuskatturinn er 8%, sem þýðir að sá sem er með 800 þúsund krónur í laun - greiðir 8 þúsund aukalega í hátekjuskatt. Meginreglan í skattkerfinu er að einstaklingar eru skattlagðir - en ekki hjón. Samsköttun snýr einkum að því að persónuafsláttur getur flust á milli hjóna auk þess sem sameiginlegar tekjur þeirra hafa áhrif á upphæðir barnabóta, vaxtabóta og fleira.

Hátekjuskatturinn er þannig lagður á einstaklinga, ekki hjón. Hjón sem eru bæði með 690 þúsund krónur í mánaðarlaun, samanlagt 1380 þúsund - greiða því engan hátekjuskatt.

Ef annað hjónanna er hins vegar með 800 þúsund krónur í laun en hitt rétt yfir skattleysismörkum og fær 120 þúsund krónur fyrir sína vinnu - þá greiða þau átta þúsund krónur í hátekjuskatt - þótt samanlagðar tekjur séu langtum lægri en hátekjuhjónin í fyrra dæminu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×