Innlent

Laus og liðugur á leið á rjúpu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þórólfi Árnasyni var sagt upp störfum í gær. Mynd/ Rósa.
Þórólfi Árnasyni var sagt upp störfum í gær. Mynd/ Rósa.
„Ég er á leið á rjúpu um helgina, þannig að það er dagurinn í dag að koma sér út úr bænum," segir Þórólfur Árnason sem lét af starfi forstjóra Skýrr í gær. Hann segist ekki vera með neitt starf í hendi. „Ég er nýbúinn að fá uppsagnarbréfið þannig að ég er ekki með neitt í huga," segir Þórólfur. Hann segist þó vera með býsna víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og óttist því ekki að hann verði í erfiðleikum með að fá vinnu þrátt fyrir erfitt efnahagsástand.

„Ég er líka í miklu áhugastarfi í mannrækt og sjálfboðastarfi," segir Þórólfur. Hann er í stjórn Hlutverkaseturs sem sér um starfsendurhæfingu fyrir geðfatlaða og þá sem eru í atvinnuleit. Þá er hann í stjórn Leikfélags Reykjavíkur og í stjórn Auðlindanáttúrusjóðs sem eru áhugasamtök sem berjast fyrir verndun náttúrunnar.

Þórólfur segist yfirleitt hafa tekið að sér ráðgjafandi verkefni þegar að hann hafi verið á milli starfa og selt sig þannig í tímavinnu. Hann býst ekki við því að breyting verði á því núna hafi menn áhuga fyrir starfskröftum hans. „En ég er atvinnustjórnandi og mun örugglega leita eftir einhverju verkefnum á því sviði þegar fram sækir," segir Þórólfur.

Samkvæmt heimildum Vísis hafa menn nákomnir Þórólfi rætt þá hugmynd að hann bjóði sig fram til forseta þegar kjörtímabili Ólafs Ragnars lýkur. Um það mál vill Þórólfur sem minnst ræða. „Það held ég að einhverjir verði að fjalla um það aðrir en ég," segir Þórólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×