Innlent

Foreldrar hlynntir styttingu skólaársins

Skoðanakönnun Heimilis og skóla gefur sterkar vísbendingar um að foreldrar vilji stytta skólaárið, svo lengi sem það kemur ekki niður á gæðum námsins.fréttablaðið/vilhelm
Skoðanakönnun Heimilis og skóla gefur sterkar vísbendingar um að foreldrar vilji stytta skólaárið, svo lengi sem það kemur ekki niður á gæðum námsins.fréttablaðið/vilhelm

Ný skoðanakönnun Heimilis og skóla bendir til að meirihluti foreldra grunnskólabarna sé hlynntur því að skólaárið verði stytt sem bráðabirgðalausn á fjárhagsvanda sveitarfélaganna.

Menntamálaráðherra hefur hafnað því að leggja fram frumvarp um styttingu skólaársins, eins og Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) hefur gert að tillögu sinni, nema með fullri sátt við Kennarasamband Íslands (KÍ), sem hefur áður hafnað hugmyndinni staðfastlega.

SÍS hefur að undanförnu reynt að vinna svokallaðri fimm prósent leið brautargengi, en hún gengur út á að starfsfólk sveitar­félaganna taki á sig fimm prósenta launaskerðingu mót tíu daga frítöku á ári. Útfærsla þessarar leiðar innan grunnskólanna væri að stytta skólaárið úr 180 í 170 daga.

SÍS fundaði með menntamálanefnd Alþingis á þriðjudag. Í greinargerð sem SÍS tók saman fyrir nefndina kemur fram að Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra lýsti því yfir á fundi með SÍS í byrjun júní „að ekki yrði lagt fram frumvarp um fækkun skóladaga nema í fullri sátt við KÍ", eins og segir í greinargerðinni.

Halldór Halldórsson, formaður SÍS og bæjarstjóri á Ísafirði, segir að með þessu hafi hugmyndin verið gott sem slegin út af borðinu með afstöðu ríkisvaldsins. „Ef við fáum ekki menntamálaráðherra til að vinna að þessu með okkur á þessum nótum þá verðum við að finna nýjar leiðir." Halldór segir dæmið mjög einfalt ef nýjar hugmyndir sem skila verulegri lækkun kostnaðar innan sveitarfélaganna koma ekki fram. „Þetta þýðir töpuð störf, það er algjörlega ljóst. Þá verður að fækka stofnunum sveitarfélaga og segja upp starfsfólki."

Sjöfn Þórðardóttir, formaður Heimilis og skóla, segir að félagið hafi gert könnun á meðal þrjú þúsund foreldra til að grennslast fyrir um viðhorf foreldra til styttingar skólaársins. „Foreldrar eru hlynntir styttingu skólaársins, fremur en að skera niður aðra grunnþjónustu innan sveitar­félaganna. Í fyrirspurnum til okkar kemur þessi afstaða einnig sterkt fram." Úrvinnsla gagna úr könnunni stendur enn yfir og niðurstöður hennar verða birtar síðar, auk þess sem ítarlegri viðbótarkönnun verður gerð á haustmánuðum. Sjöfn segir jafnframt að hafa beri í huga hversu ólík sveitarfélögin eru og þarfir íbúanna þess vegna; það komi greinilega fram í afstöðu þeirra sem spurðir voru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×