Innlent

Skuldavandi heimila er viðráðanlegur

Stolt Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kveðst stolt af þeim árangri sem ríkisstjórn hennar hefur náð á átta mánaða starfstíma sínum.
Stolt Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kveðst stolt af þeim árangri sem ríkisstjórn hennar hefur náð á átta mánaða starfstíma sínum.

Útfærsla endanlegra aðgerða til að koma til móts við þá sem eiga í mestum skuldavanda er á lokastigi. Er aðgerðunum ætlað að gilda um alla, sama hvar þeir skulda og sama hverrar tegundar lán þeirra eru.

Þetta kom fram í máli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á laugardag.

Sagði hún aðgerðirnar tryggja bæði húsnæðisöryggi fólks og að skuldsett heimili verði ekki föst í skuldafjötrum um ókomna tíð.

„Allar kannanir sýna að vandinn er viðráðanlegur og í raun séu það um tuttugu prósent heimila sem þurfi nú á róttækum aðgerðum að halda,“ sagði Jóhanna.

Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir að stoppa í 180 milljarða króna halla á fjórum árum. Sagði Jóhanna ráðgert að hallinn yrði tæpum 100 milljörðum minni í lok næsta árs. Því verði náð fram með niðurskurði, sparnaði, uppstokkun ríkiskerfisins og réttlátari skattastefnu en verið hafi.

Í undirbúningi eru stórframkvæmdir í orkumálum, vegamálum og byggingariðnaði, meðal annars með aðkomu lífeyrissjóða. Jóhanna gat um ákvörðun ríkis­stjórnar­innar frá því á föstudag um að greiða götu þess að nýr Landspítali risi. Við það skapast minnst 800 störf. Nefndi hún líka Búðarhálsvirkjun, stækkun Straumsvíkur­álversins, byggingu álversins í Helguvík, Suðurlands­veg, gagnaver og virkjun jarðhita sem verkefni til uppbyggingar atvinnulífs.

Hún sagði líka margt í bígerð til að draga úr umsvifum hins opinbera og nefndi sameiningu stofnana og embætta.

Þá upplýsti Jóhanna að hún hefði farið fram á að skilanefndir bankanna greindu opinberlega frá störfum sínum. Sagði hún marga hafa áhyggjur af því hvernig staðið væri að endurskipulagningu á skuldum fyrirtækja, hver þeirra yrðu knúin í þrot og hverjum hjálpað með skuldbreytingum og afskriftum. Allt þyrfti að vera á hreinu í þessum efnum í nýju og betra samfélagi.bjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×