Innlent

Vilja friðlýsa Skjálfandafljót

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Þuríður Backman, þingmaður VG, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Þuríður Backman, þingmaður VG, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Mynd/Anton Brink
Þingmenn þriggja flokka hafa lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um friðlýsingu Skjálfandafljóts og alls vatnasviðs þess ofan Mjóadalsár. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Þuríður Backman, þingmaður VG.

„Friðlýsingin taki til sjálfs fljótsins frá upptökum til árósa og alls vatnasviðs Skjálfandafljóts ofan Mjóadalsár í Bárðardal, þar með talið þverár, og verði hvers kyns röskun á náttúrulegum rennslisháttum fljótsins þar óheimil, svo og mannvirkjagerð. Skal friðun svæðisins stuðla að varðveislu landslags þess, náttúrufars og menningarminja ásamt því að það verði notað til útivistar, ferðaþjónustu og hefðbundins landbúnaðar," segir í tillögunni.

Flutningsmenn tillögunnar eru þeirrar skoðunar að tímabært sé og þarft að Alþingi taki af skarið í þessu máli. Að mati þeirra yrði friðun Skjálfandafljóts stórt skref í átt að fullnægjandi árangri á sviði náttúruverndar en þó einungis eitt af fjölmörgum nauðsynlegum skrefum.

Meðflutningsmenn Þuríðar eru Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrverandi umhverfisráðherra Samfylkingu, Margrét Tryggvadóttir Hreyfingunni, Davíð Stefánsson varaþingmaður Vinstri grænum, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir Samfylkingu og Björn Valur Gíslason Vinstri grænum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×