Innlent

UNIFEM á Íslandi fagnar 20 ára afmæli sínu í dag

Í dag fagnar UNIFEM á Íslandi 20 ára afmæli sínu en þessi dagur er einnig alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Á sama tíma er því fagnað að Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna á 30 ára afmæli.

Af þessu tilefni er efnt til afmælishátíðar í Þjóðleikhúskjallaranum frá kl. 17 - 19 en þar verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá.

Í tilkynningu segir að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mun ávarpa veislugesti, konur úr Sinfóníuhljómsveit Íslands leika, Ólína Þorvarðadóttir mun kveða rímu, trúðurinn Gjóla varpar ljósi á Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Auður Jónsdóttir skáldkona flytur ljóð tileinkað UNIFEM, Lina Mazar segir frá reynslu sinni sem kona í flóttamannabúðum í Írak, Ellen Kristjánsdóttir og dætur taka lagið og einnig verður rætt við stofnendur UNIFEM á Íslandi, þær Kristjönu Millu Thorsteinsson og Sæunni Andrésdóttur.

Veislustjóri verður Eva María Jónsdóttir og boðið verður upp á léttar veitingar. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir!

„Það hefur kannski ekki farið fram hjá neinum að upp á nánast hvern einasta dag undanfarið hafa verið fréttir í íslenskum fjölmiðlum um mansal, heimilisofbeldi, nauðganir, klám, vændi og sifjaspell. Því miður er þetta ekki eingöngu vandamál á Íslandi heldur alþjóðlegt vandamál sem teygir anga sína víða. Tölur Sameinuðu þjóðanna gefa til kynna að ein af hverjum þremur konum verði fyrir einhvers konar kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni, þetta hlutfall er allt of hátt," segir Ragna Sara Jónsdóttir formaður UNIFEM á Íslandi í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×