Innlent

Ógildir ekki skipun ráðherra

Umboðsmaður Alþingis telur Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra ekki hafa brotið lög þegar hann skipaði orkumálastjóra í árslok 2007.
Fréttablaðið/GVA
Umboðsmaður Alþingis telur Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra ekki hafa brotið lög þegar hann skipaði orkumálastjóra í árslok 2007. Fréttablaðið/GVA

Umboðsmaður Alþingis segir málsmeðferð iðnaðarráðuneytisins við skipan orkumálastjóra árið 2007 hafa verið ábótavant. Það eigi þó ekki að leiða til ógildingar á skipun ráðherra á orkumálastjóra.

Össur Skarphéðinsson, þáverandi iðnaðarráðherra, skipaði í lok desember 2007 Guðna A. Jóhannesson í embætti orkumálastjóra. Meðal umsækjenda um stöðuna var Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir varaorkumálastjóri. Hún kvartaði til umboðsmanns Alþingis yfir þeirri ákvörðun. Þá kvartaði hún yfir því að ráðuneytið hefði neitað að afhenda henni afrit af undirskriftalistum starfsmanna sem mæltu með henni við ráðherra. Róbert Spanó, umboðsmaður Alþingis, telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þau sjónarmið ráðherra sem lágu að baki skipuninni, og tekur ekki undir með Ragnheiði að hún hafi verið hæfari en Guðni.

Umboðsmaður kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ráðuneytinu hafi borið að afhenda Ragnheiði gögn málsins, þar með talið undirskriftalistana. Synjun á þeirri beiðni hafi ekki verið í samræmi við lög.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki beiðni um aðgang að gögnunum til endurskoðunar. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×