Enski boltinn

Hiddink varaður við StunGun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í leik með Coventry.
Aron Einar Gunnarsson í leik með Coventry. Nordic Photos / Getty Images
The Sun fjallar í dag um leik Chelsea og Coventry sem hefst klukkan 12.30 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sporti.

Fjallað er sérstaklega um löngu innköstin hans Arons Einars Gunnarssonar - sem er nefndur StunGun í greininni - en hann lagði einmitt upp mark fyrir Coventry með innkasti á miðvikudagskvöldið.

Minnst er á innköstin frægu hjá Rory Delap, leikmanni Stoke, og sagt að Aron Einar sé enginn eftirbátur hans.

Eins og margoft hefur komið fram lærði Aron kasttækni sína með því að spila handbolta. Það þykir mörgum Bretum furðulegt enda er handbolti nánast óþekkt þar í landi.

Bróðir Arons, Arnór Þór Gunnarsson, er einn allra besti hornamaður N1-deildar karla í handbolta en hann leikur með Val.

Aron rifjar upp í samtali við The Sun að hann hafi ekki sagt neinu frá innköstum sínum áður en hann kom til félagsins.

„Við vorum á undirbúningstímabilinu í Austurríki og hitt liðið var að setja pressu á okkur hjá hornfánanum. Boltinn fór margoft út af og bað ég um að fá að taka innkast. Ég þrykkti boltanum yfir á hinn vallarhelminginn og menn voru nokkuð gáttaðir."

„Svo þegar tímabilið hófst sögðu einhverjir að ég væri með alveg eins innkast og Rory Delap sem ég hafði ekki hugmynd um hver væri."

„Svo sá ég hann í sjónvarpinu. Hann getur kastað langt en ég er viss um að ég geti kastað lengra. En við notum greinilega sömu tæknina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×