Innlent

Vilja flytja ferðamenn í Surtsey

Surtsey
Surtsey
Kristín Jóhannsdóttir, markaðsfulltrúi, hefur fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar, sótt um leyfi til Surtseyjarstofu að fá að flytja um hundrað ferðamenn út í Surtsey í sumar. Surtsey, sem er á heimsminjaskrá, hefur verið friðuð síðan 1965 í þágu rannsókna en hugmyndin er að flytja ferðamenn­ina með þyrlu frá Heimaey.

Það er vikublaðið Fréttir sem greina frá þessu í dag. Kristín segir í samtali við blaðið að með umsókninni sé ekki verið að ógna lífríki Surtseyjar.

„Töfraorðið í ferðaþjónustu í dag er nýsköpun, og ef þetta er ekki öflug nýsköpun þá veit ég ekki hvað," sagði Kristín og lagði áherslu á að auðvitað verði þetta aldrei gert nema í sátt og samráði við Náttúrustofu Suðurlands og Surtseyjarstofu.

„Þarna sé ég borðleggjandi tekju­lind fyrir Vestmannaeyjabæ. Fyrir liggja metnaðarfullar áætlanir um uppbyggingu Eldheima/Pompei norð­ursins með Surtseyjarsýningu og jarðsögu Vestmannaeyja. Fjár­magnið, sem fengist af þessari takmörkuðu opnun Surtseyjar, nýtist vel til að fjármagna þessa uppbygg­ingu nú á þessum síðustu og verstu tímum þegar erfitt er að fá peninga til allra menningarverkefna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×