Innlent

Skiptar skoðanir um áhrif Icesave samningsins

Jón Daníelsson.
Jón Daníelsson. MYND/Stefán Karlsson

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segir að Icesave lánið kunni að hafa einhver áhrif á gengi krónunnar en það dæmi hana ekki til að vera lága um aldur og ævi. Jón Daníelsson hagfræðiprófessor vill hins vegar meina að framtíð hagkerfisins velti á því að samið verði upp á nýtt.

Icesave frumvarpið var lagt fram á Alþingi í gær. Ef frumvarpið verður samþykkt þýðir það að fjármálaráðherra fær heimild fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán frá Bretum og Hollendingum vegna Icesave innistæðna. Lánið er rúmir 700 milljarðar króna auk vaxta, sem gætu orðið tvö til þrjú hundruð milljarðar króna.

Jón Daníelsson, hagfræðiprófessor við London School of Economics, segir að Icesave samningurinn muni hafa úrslitaáhrif á framtíð íslenska hagkerfisins. Hann útlistaði þá skoðun sína í gær að afdrifarík mistök hafi verið gerð af hálfu íslensku samninganefndarinnar og að Alþingi verði að fella samninginn. Semja þurfi upp á nýtt og fá til þess færustu sérfræðinga.

Fjármálaráðherra er annarar skoðunar. Hann segist sannfærður um að ekki sé hægt að ná betri samning. Sú hugmynd hefur verið viðruð að Ísland greiði 1% af landsframleiðslu í stað þess fyrirkomulags sem nú liggur fyrir. Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra telur þá hugmynd ekki af hinu góða.

Icesave lánið er skráð í pundum og evrum. Við spurðum viðskiptaráðherra í gær hvort væntanlegt útstreymi gjaldeyris til að greiða lánið gæti haft þau áhrif að veikja krónuna um ókomna tíð. Gylfi segir svo alls ekki vera, vissulega gæti það haft einhver áhrif á gengið en að skuldbindingin sé það lítil í samhengi hlutanna að það dæmi hana ekki til að vera veik um aldur og ævi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×