Íslenski boltinn

Óli Stefán: Mikilvægt að önnur lið í deildinni átti sig á smithættunni

Ómar Þorgeirsson skrifar
Óli Stefán Flóventsson.
Óli Stefán Flóventsson.

Grindvíkingurinn Óli Stefán Flóventsson hefur staðfest að hann hafi greinst með svínaflensuna en níu aðrir leikmenn liðsins eru mjög líklega einnig með sömu tegund af flensu.

„Ég fékk staðfestingu á þessu í hádeginu í dag og landlæknisembættið segir að menn eigi þá að vera í sóttkví í sjö daga á eftir. Ég steinlá á mánudeginum en læknarnir sögðu mér að ég hefði mjög líklega þegar verið orðinn smitberi á sunnudeginum þó svo að ég hafi ekki fundið mikið fyrir einkennunum þá.

Á mánudeginum fékk ég mikinn hita og höfuð -og beinverki og leið alveg djöfullega bara. Ég er samt allur að koma til núna og er orðinn hitalaus," segir Óli Stefán.

Óli Stefán segir mikilvægt að önnur lið í deildinni átti sig á því hversu fljótt veiran berist á milli manna og með hvaða hætti.

„Við vorum ekkert að spá í þetta þó svo að Zoran [Stamenic] hafi verið farinn að finna einkenni á laugardeginum og drukkum allir úr sömu vatnsbrúsum og annað slíkt.

Það er því mikilvægt núna að önnur lið í deildinni hafi varann á því þetta er bráðsmitandi andskoti," segir Óli Stefán en nánara viðtal birtist við hann í Fréttablaðinu á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×