Erlent

Myndi ekki þekkja í sundur bin Laden og Winonu Ryder

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Winona Ryder og Osama bin Laden. Ekki beint tvífarar ársins en engu að síður myndi kennslabúnaður á breskum flugvöllum álíta þau sömu manneskjuna.
Winona Ryder og Osama bin Laden. Ekki beint tvífarar ársins en engu að síður myndi kennslabúnaður á breskum flugvöllum álíta þau sömu manneskjuna.

Sýnt hefur verið fram á að kennslabúnaður á breskum flugvöllum þekki ekki í sundur Osama bin Laden og Winonu Ryder.

Þetta kemur fram á minnisblaði breskra stjórnvalda sem lekið var í fjölmiðla. Búnaðinum, sem verið er að prófa á flugvöllum í Manchester og víðar, er ætlað að bera kennsl á farþega sem fara um flugvellina og auðvelda öryggisvörðum og tollgæslu að bera kennsl á hryðjuverkamenn og aðra sem hugsanlega ferðast undir fölsku flaggi og nota fölsuð vegabréf.

Á minnisblaðinu kemur fram að búnaðurinn sé stilltur á samanburðarstig sem nemi aðeins 30 prósentum, sem táknar að kerfið geri ekki athugasemd nema líkindi með andliti manneskju og mynd af henni í vegabréfi séu innan við 30 prósent.

Segir í minnisblaðinu að ekki hafi verið gefnar fullnægjandi skýringar á þessu en það tákni ekkert annað en að skekkjumörkin séu algjörlega óviðunandi. Fólk jafnólíkt í útliti og Osama bin Laden og leikkonan Winona Ryder muni ekki verða greint í sundur af búnaðinum sem varla geti talist mjög nákvæmt eftirlit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×