Innlent

30 tonna trébátur sökk í morgun

Trillan sökk í höfninni í morgun. Mynd/Skessuhorn.is
Trillan sökk í höfninni í morgun. Mynd/Skessuhorn.is

Tæplega 30 tonna trébátur, Skátinn GK 82, sökk við slippsbryggjuna á Akranesi á tíunda tímanum í morgun en báturinn hafði legið við bryggjuna í um viku.

Á vefnum skessuhorn.is kemur fram að starfsmenn í Daníelsslippi voru að vinna um borð í bátnum dagana á undan og komið var að því að færa hann upp í slippinn.

Báturinn er á bólakafi við bryggjuna en einungis möstrin standa uppúr sjó eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Til stendur að báturinn verði tekinn upp á morgun. Þá koma kafarar og kranabíll á staðinn og væntanlega kemur þá í ljós orsök þess að báturinn sökk, en ekkert var að veðri í nótt og starfsmenn Daníelsslipps segja að bönd sem báturinn var bundinn með við bryggjuna hafi verið í lagi.

Gunnar Richter í Daníelsslipp segir í samtali við Skessuhorn að þegar menn hafi komið að bátnum upp úr klukkan átta í morgun hafi allt virst í lagi, en svo virðist sem báturinn hafa sokkið á næsta klukkutímanum. Þó hljóti að hafa verið kominn sjór í bátinn í morgun, að sögn Gunnars.

Skátinn GK er í eigu Gunnars Leifs Stefánssonar sem gerir út skip, meðal annars til hvalaskoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×