Erlent

Tvö ístungl í Kuiper-beltinu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Þetta er það sem gæti blasað við þeim sem næði að leggja leið sína til Kuiper-beltisins. Kannski ekki beint Þingvellir eða Öxará en tilkomumikið engu að síður.
Þetta er það sem gæti blasað við þeim sem næði að leggja leið sína til Kuiper-beltisins. Kannski ekki beint Þingvellir eða Öxará en tilkomumikið engu að síður.

Tvö tungl dvergplánetunnar Haumeu í Kuiper-beltinu svokallaða eru gerð úr ís eingöngu.

Það þyrfti stórt glas til að rúma þessa ísmola. Stærra tunglið er á stærð við Ohio-ríki í Bandaríkjunum en það minna nálgast tvöfalda stærð Rhode Island. Þessir tveir risaísklumpar sveima kringum Haumeu og teljast fullgild tungl hennar þrátt fyrir að vera ekki úr burðarmeira efni en ís.

Vísindamenn hafa gefið ísmolunum heitin Hi'iaka og Nakama og hafa með aðstoð Hubble-stjörnusjónaukans náð að greina yfirborð þeirra sem er gert úr kristölluðum ís. Þar sem bæði tunglin hafa hitnað og kólnað á víxl, að því er virðist án þess að þyngri efni í þeim leiti í átt að kjarna þeirra, draga stjörnufræðingar þá ályktun að þau séu gerð úr ís í gegn.

Slíkt þykir óvenjulegt í Kuiper-beltinu sem er svæði í sólkerfinu með innri mörk sín nálægt braut Neptúnusar. Í beltinu hafa fundist um 800 hlutir, þar á meðal Plútó og tungl þess Karon, sem nefnt er í höfuðið á ferjumanninum alræmda í grísku goðafræðinni en hann ferjaði hina dauðu yfir fljótið Akkeron og til undirheimanna.

Útreikningar sýna að í Kuiper-beltinu megi finna hluti á stærð við Mars og jörðina. Ekkert smáræði sem sagt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×