Innlent

Flugmenn mótmæla harðlega frumvarpi um rannsókn flugslysa

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Flestir flugmenn í FIA vinna hjá Icelandair Group. Mynd/ Vilhelm.
Flestir flugmenn í FIA vinna hjá Icelandair Group. Mynd/ Vilhelm.
Stjórn Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) segir að ef Alþingi samþykkir lagafrumvarp samgönguráðherra um rannsókn samgönguslysa geti flugmenn ekki ábyrgst framhald á því góða samstarfi við flugmálayfirvöld varðandi flugslys og flugatvik, sem áunnist hefur undanfarin ár.

Í yfirlýsingu sem stjórn FÍA sendi samgönguráðuneytinu í dag segir að félagið hafi í apríl síðastliðnum lýst afstöðu sinni og alvarlegum áhyggjum af framgangi þessa máls, en ráðuneytið hafi ekki séð ástæðu til að leita eftir frekari samvinnu um málið.

Kjartan Norðdahl héraðsdómslögmaður og fyrrverandi flugstjóri segir í samtali við Vísi að sátt hafi verið um lagaumgjörð og framkvæmd í þessum málaflokki undanfarin ár. Þess vegna þyrfti að vanda mjög vel til verka ef það ætti að fara að hrófla eitthvað við þeirri lagaumgjörð. Kjartan segist þó skilja ef vilji sé til þess að hagræða í rekstri rannsóknarnefndar flugslysa. Það ætti hins vegar ekki að gera með því að breyta lagaumgjörðinni.

Í yfirlýsingunni sem send var samgönguráðuneytinu er lýst áhyggjum af því að ef ekki ríki sátt um lagaumhverfið sem varði rannsóknir flugslysa geti það leitt til þess að dragi úr trausti og samstarfsvilja flugmanna til að tjá sig við rannsóknarnefndina. Það muni hafa stórskaðleg áhrif á framgang flugslysarannsókna og þar með almennt flugöryggi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×