Innlent

Reynir fyrst við Jón Ásgeir

Finnur Sveinbjörnsson Bankastjórinn hefur sætt ámæli fyrir að ætla að láta eigendur 1998 fá stóran hluta í Högum fyrir tiltölulega lítið fé.
Finnur Sveinbjörnsson Bankastjórinn hefur sætt ámæli fyrir að ætla að láta eigendur 1998 fá stóran hluta í Högum fyrir tiltölulega lítið fé.

Nýja Kaupþing mun reyna í þaula að semja við eigendur 1998, eignarhaldsfélags Haga, um endurskipulagningu fyrirtækisins áður en leitað verður til annarra mögulegra fjárfesta.

Þetta er samkvæmt þeirri meginreglu bankans að eiga samstarf við eigendur og stjórnendur fyrirtækja í vandræðum, vegna endurskipulagningar lána, og að skoða hvort eigendurnir geti komið með nýtt fjármagn.

Frést hefur af hópi fjárfesta sem hyggst gera tilboð í sextíu prósenta hlut í Högum. Fréttablaðið hefur reynt síðustu daga að fá upplýsingar frá Finni Sveinbjörnssyni, bankastjóra Kaupþings, um þetta og um málefni 1998.

Blaðið spurði meðal annars hvort leitað hefði verið til annarra fjárfesta en þeirra sem áður áttu 1998/Haga, um að færa fjármagn í endurreist fyrirtæki. Því var svarað með framangreindum hætti.

Bankinn svarar hins vegar ekki hvort hagkvæmt gæti verið að skipta fyrirtækinu upp og selja í hlutum, eða hvort fyrirtæki og einstaklingar sitji við sama borð við skuldaniðurfellingu.

Bankinn vísar í verklagsreglur og útgefna yfirlýsingu um að ekkert hafi verið afskrifað hjá 1998, að eigendur fyrirtækisins njóti engrar sérmeðferðar og að upplýsingar sem borist hafi í fjölmiðlum séu úr lausu lofti gripnar. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×