Lífið

Hreppti þúsund dollara skólastyrk á þekktri hátíð

efnilegur árni beinteinn
Var valinn besti kvikmyndagerðarmaðurinn undir átján ára aldri á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Nashville.
efnilegur árni beinteinn Var valinn besti kvikmyndagerðarmaðurinn undir átján ára aldri á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Nashville.

„Þetta er gífurlega mikill heiður. Þessu fylgja verðlaun sem hljóða upp á hvorki meira né minna en tíu þúsund dollara skólastyrk í kvikmyndaskóla í Nashville,“ segir Árni Beinteinn, hinn ungi og bráðefnilegi kvikmyndagerðarmaður með meiru.

Hann hreppti nýverið titilinn „The Best Young Film­maker“ á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Nashville, Nashville Film Festival, sem haldin var í fertugasta sinn.

Stuttmynd Árna Beinteins „Auga fyrir auga“, sem frumsýnd var fyrir réttu ári, var á þessari stóru og virtu kvikmyndahátíð sem svo leiddi til þess að Árni Beinteinn hlaut þennan tilkomumikla titil: Besti kvikmyndagerðarmaðurinn undir átján ára aldri. Og ekki gerir það árangur hans minni að Árni er nýlega orðinn fjórtán ára og var því að keppa við sér eldri menn.

„Ég og Kvikmyndamiðstöð einnig höfum verið að senda myndina á ýmsar hátíðir. Fjöldi mynda berst á Nashville-hátíðina og af þeim eru tíu valdar úr og þær sýndar í kvikmyndahúsi á hátíðinni. Dómnefnd fer yfir þetta og ég var sem sagt valinn,“ segir Árni. Sem nú íhugar hinn rausnarlega skólastyrk sem fylgir verðlaununum og veltir fyrir sér kvikmyndaskólanum – en honum sýnist þetta vera háskóli og hann þarf helst að vera átján ára til að sækja hann.

„Þetta er aðallega heiðurinn og meira en lítill heiður. Og mun vonandi verða myndinni og mér til framdráttar. Ég er alltaf með nokkrar myndir á teikniborðinu. Spennandi væri að fá tækifæri til að gera aðra mynd í sumar. Maður verður að halda sér við svo maður gleymi þessu ekki,“ segir Árni, sem fór ekki til Nashville sökum anna en fjöldi þekktra nafna úr kvikmyndabransanum var á hátíðinni.

Má þar nefna menn á borð við William Shatner, Vincent D‘Onofrio og hinn aldna höfðingja Hal Holbrook.

Undanfarna þrjá mánuði hefur Árni verið að æfa baki í brotnu veigamikið hlutverk sem hann fer með í Söngvaseiði. Fréttablaðið ræddi við Árna á frumsýningardag (í gær) og var hann spenntur heima við að undirbúa sig og fullur tilhlökkunar fyrir kvöldið. „Nei, ekkert stressaður. Bara spenntur,“ segir Árni Beinteinn – fjölhæfur með afbrigðum og á framtíðina fyrir sér.

jakob@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.