Lífið

Sturlunga vaknar til lífsins

Benedikt segir ýmislegt svipað með ástandinu nú og þegar Sturlungaöld var.
Benedikt segir ýmislegt svipað með ástandinu nú og þegar Sturlungaöld var. MYND/Fréttablaðið/Heiða
Benedikt Erlingsson leikari vinnur að heimildarþáttum um Sturlungaöld. Tökur hefjast líklega í sumar.

„Fyrsta uppkast er komið,“ segir leikarinn Benedikt Erlingsson sem vinnur nú að gerð heimildarþáttaraðar um Sturlungaöld. Þættirnir verða sjö talsins, farið verður á sögustaði og lykilatburðir endurgerðir. „Þetta verður reyndar ekki eins og í öðrum heimildarþáttum, þar sem einhverjir menn eru klæddir í miðaldabúninga og látnir leika. Heldur verður þetta svona svipað og þegar lögreglan rannsakar vettvang glæps nema með ábúendur í aðalhlutverki, fólkið sem býr þarna núna,“ útskýrir Benedikt og bætir við að menn fái eflaust að segja eitthvað áður en þeir stinga járnum hver í annan.

Sumir hafa jafnvel fleygt því fram að ný Sturlungaöld sé í sjónmáli. Benedikt er ekki alveg reiðubúinn að kvitta upp á það. Og þó. „Sturlungaöld var auðvitað upphafið að sjálftökusamfélaginu þegar þjóðveldið riðaði til falls og jafnvægi þjóðfélagsins riðlaðist. Stórhöfðingjar urðu til og okkar forni fjandi, fákeppnin, birtist þarna fyrst.“ Og það er auðveldlega hægt að finna fleiri samlíkingar að sögn Benedikts; Baugs- og Björgólfsfeðgar væru Haukdælir og Svín­dælingar okkar tíma og samningurinn við Noregskonung ekkert annað en innganga í Evrópusambandið. „En þetta veltur auðvitað allt á því hvernig menn kjósa að lesa í og túlka sögu okkar.“ Benedikt hefur þegar fengið styrk úr Kvikmyndasjóði og hefur verið í góðu sambandi við Ríkissjónvarpið um sýningar og framleiðslu á þáttaröðinni og er bjartsýnn á að tökur geti hafist í sumar.

freyrgigjafrettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.