Erlent

Eru að fá sig fullsadda af ofbeldi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Lögregla og sjúkraflutningamenn á vettvangi í gær.
Lögregla og sjúkraflutningamenn á vettvangi í gær. MYND/Politiken/Thomas Borberg

Einn er látinn og fjórir særðir eftir skotbardaga á Amager í gærkvöldi og eru Kaupmannahafnarbúar að fá sig fullsadda af skálmöldinni.

Eins og oft áður sló þarna í brýnu milli glæpahópa en róstursamt hefur verið í höfuðborginni og nágrenni hennar undanfarna mánuði. Hefur þar mest borið á illdeilum vélhjólasamtakanna Vítisengla og glæpahópa innflytjenda sem deilt hafa um markaðssvæði vegna fíkniefnasölu. Skotbardaginn í gær varð á kaffihúsinu Vaaren sem er þekktur samkomustaður félaga í AK81 en það eru stuðningssamtök Vítisengla og eins konar uppeldisstöð væntanlegra engla.

Á föstudaginn var maður skotinn til bana í Nørrebro-hverfinu og annar er slasaður eftir skotárás á laugardag svo segja má að skammt sé milli stórra verka og illra í Kaupmannahöfn þessa dagana. Íbúar Nørrebro hafa nú tekið höndum saman undir kjörorðinu „Væk med vold og våben", eða burt með ofbeldi og vopn, og bundið það fastmælum að koma á sérstöku samstarfi við lögreglu og standa hálfgerða vakt í hverfinu með það fyrir augum að kæfa ofbeldisverkin í fæðingu.

Kona sem búið hefur í hverfinu í aldarfjórðung segir að þetta gangi hreinlega ekki lengur og nú sé sannarlega tímabært að bera klæði á vopnin. Nørrebro sé heimili en ekki vígvöllur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×