Innlent

Ekki gott að Sigmundur neitaði

gunnar helgi Hann segir þá spurningu um afsögn Sigmundar vakna ef hann hefur misst traust kjósenda sinna.
fréttablaðið/gva
gunnar helgi Hann segir þá spurningu um afsögn Sigmundar vakna ef hann hefur misst traust kjósenda sinna. fréttablaðið/gva

Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur segist fastlega gera ráð fyrir að framkoma Sigmundar Ernis Rúnarssonar alþingismanns í ræðustól Alþingis hafi skaðað hann. Hefur Sigmundur Ernir viðurkennt að hafa smakkað vín áður en hann hélt ræðu um Icesave-málið síðastliðinn fimmtudag. Var hann að koma úr golfmóti MP-banka.

„Það er engin leið að segja þó hver langtímaáhrifin eru. Ræðst það meira af því hvernig honum gengur,“ segir Gunnar. Telur hann þetta lítil áhrif geta haft á Samfylkinguna, nema þetta verði fjölmiðlamál í langan tíma.

Gunnar Helgi man ekki eftir öðrum dæmum þar sem menn hafi verið drukknir í þingstól. Gæti það þó hafa gerst hér áður fyrr þegar engar upptökur voru og þingmönnum leyfðist að leiðrétta ræður sínar eftir á hjá þingriturum.

„Ekki er gott að hann hafi neitað þessu fyrst og hann er í verri málum vegna þess,“ segir Gunnar en Sigmundur neitaði fyrst staðfastlega að hafa smakkað áfengi áður en hann fór í ræðustól.

En á Sigmundur að segja af sér? „Ef hann hefur misst traust kjósenda sinna og Samfylkingarinnar hlýtur sú spurning að vakna,“ segir Gunnar Helgi.

- vsp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×