Enski boltinn

Benitez gagnrýnir Tottenham

Rafa Benitez skammar Tottenham fyrir sömu vinnubrögð og hann beitti sjálfur fyrir nokkrum mánuðum
Rafa Benitez skammar Tottenham fyrir sömu vinnubrögð og hann beitti sjálfur fyrir nokkrum mánuðum NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez stjóri Liverpool segist vera ósáttur við vinnubrögð kollega síns Harry Redknapp hjá Tottenham, sem í vikunni lýsti því yfir að hann hefði miklar mætur á framherjanum Robbie Keane.

Keane hefur átt afar dapra leiktíð með Liverpool eftir að hafa verið keyptur á 20 milljónir frá Tottenham síðasta sumar og fyrir nokkru vaknaði orðrómur um að Tottenham gæti jafnvel reynt að fá hann í sínar raðir aftur.

Harry Redknapp lét hafa það eftir sér fyrir nokkrum dögum að sér þætti Keane vera "frábær leikmaður" í viðtali og það fór öfugt ofan í taugastrekktan knattspyrnustjóra Liverpool.

"Við létum Tottenham vita af því að við værum ósáttir," sagði Benitez á blaðamannafundi og var þá út í hvað nákvæmlega.

"Við erum ósáttir við ummæli þeirra varðandi Robbie Keane," sagði Benitez.

Einhver gæti kallað þetta að kasta steini úr glerhúsi, því ekki eru margir mánuðir síðan Tottenham hótaði að fara í mál við Liverpool eftir að Benitez hafði ítrekað lýst því yfir í blaðaviðtölum að félagið hefði áhuga á að kaupa Robbie Keane - á meðan leikmaðurinn var enn samninsbundinn Tottenham og án þess að fá leyfi frá stjórn félagsins til að ræða við hann.

Það fór svo að lokum að Keane fór fram á það við stjórn Tottenham að fá að fara til "liðs drauma sinna" - en sá draumur hefur verið mun líkari martröð fyrir írska landsliðsmanninn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×