Innlent

Eyða þarf óvissunni - vill Gunnar og spillinguna burt

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Ólafur Þór Gunnarsson, læknir, er bæjarfulltrúi VG í Kópavogi.
Ólafur Þór Gunnarsson, læknir, er bæjarfulltrúi VG í Kópavogi.
„Óvissa er aldrei góð og hjálpar hvorki bæjarfélaginu og alveg örugglega ekki Sjálfstæðisflokknum né meirihlutanum," segir Ólafur Þór Gunnarsson, oddviti Vinstri grænna í Kópavogi, um stöðu mála í bæjarfélaginu en

talsverð óvissa hefur verið um framtíð Gunnars Birgissonar sem bæjarstjóra vegna viðskipta Kópavogs við dóttur hans.

Fréttablaðið og Morgunblaðið greina frá því í dag að vaxandi stuðningur sé meðal sjálfstæðismanna við þá hugmynd að Gunnar sitji áfram sem bæjarstjóri. Framsóknarmenn og minnihlutaflokkarnir vilja aftur á móti að Gunnar víki.

Ólafur segir engar þreifingar um nýtt meirihlutasamstarf hafa átt sér stað. Hann vænti þess að meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks starfi áfram enda snúist málatilbúnaður Vinstri grænna og Samfylkingar ekki um að fella meirihlutann.

„Málið snýst fyrst og fremst um að við viljum ekki hafa svona spillingu grasserandi í bæjarfélaginu," segir Ólafur. Ljóst sé að farið hafi verið býsna frjálslega með heimildir og fjármuni bæjarfélagsins. Þess vegna sé brýnt að Gunnar axli ábyrgð og víki.

Ólafur vill lítið segja til um framhaldið og bendir á að boltinn sé hjá sjálfstæðis- og framsóknarmönnum.

Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi kemur saman til fundar í kvöld og þar mun pólitísk framtíð Gunnars og meirihlutans skýrast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×