Erlent

Stangarstökkvari hljóp nakinn gegnum París

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Romain Mesnil, silfurverðlaunahafi á heimsmeistaramóti í japönsku borginni Osaka í hitteðfyrra, á ekki sjö dagana sæla. Hann vantar sárlega styrktaraðila sem gerir honum kleift að stunda íþrótt sína og keppa í henni.

Mesnil er þó ekki af baki dottinn og er greinilega ekki sammála gamla Stuðmannatextanum um að hann myndi gera allt fyrir frægðina nema koma fram nakinn. Það var nefnilega einmitt þannig sem hann kom fram á götum Parísar nýverið en Mesnil hljóp nakinn gegnum borgina, lét myndatökumann fylgja sér eftir og birti myndbandið svo á Netinu.

Hann segir í samtali við Reuters að með þessu vonist hann til þess að styrktaraðilar hópist að honum og dæli í hann peningum. „Svona er kreppan," sagði Mesnil í viðtalinu og benti á að hann, rétt eins og aðrir, yrði bara að gjöra svo vel og leita allra leiða til að verða sér úti um fé.

Athæfið hefur að minnsta kosti vakið verðskuldaða athygli en frönsk sjónvarpsstöð sýndi hluta af nektarhlaupi hans í fréttatíma sínum. Ekki hafa hins vegar borist fréttir af því hvort styrktaraðilar hafi haft samband og boðið gull og græna skóga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×