Innlent

Næsta vika sker úr um líf sáttmálans

Mikil bjartsýni ríkti þegar skrifað var undir stöðugleikasáttmálann 25. júní. Oft virtist ætla að sliltna upp úr samningum en þeir náðust að lokum. Nú er óvíst hvort þeir halda.fréttablaðið/pjetur
Mikil bjartsýni ríkti þegar skrifað var undir stöðugleikasáttmálann 25. júní. Oft virtist ætla að sliltna upp úr samningum en þeir náðust að lokum. Nú er óvíst hvort þeir halda.fréttablaðið/pjetur

„Kjarasamningur okkar er nú í þriðja sinn á þessu ári kominn í uppnám og langlundargeð gagnvart úrræðaleysi stjórnvalda í nánast öllum málum er að þrotum komið. Allt eins gætum við staðið frammi fyrir því, að þrátt fyrir náið samstarf samtaka launafólks og atvinnurekenda í þessari glímu, geti komið til uppsagnar kjarasamninga í byrjun næstu viku.“ Svo mælti Gylfi Arngrímsson í setningarræðu sinni á ársfundi Alþýðusambands Íslands (ASÍ) í gær.

Gylfi hefur verið mjög gagnrýninn á ríkisstjórnina, telur hana ekki hafa staðið við þau fyrirheit sem gefin voru í stöðugleikasáttmálanum. Icesave hafi tekið allan tíma yfirvalda og fjöldi þjóðhagslega mikilvægra verkefna hafi setið á hakanum.

Stjórnvöld hafa fundað með samninganefnd ASÍ og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins (SA) um stöðugleikasáttmálann. Gylfi segir lítið hafa þokast í þeim viðræðum, fulltrúar vinnumarkaðarins hafi dregið þá niðurstöðu að stjórnin hafi efnt afar fátt sem lagt hafi verið upp með í sáttmálanum. „Eftir að hafa setið að þjarki í tvær vikur er ljóst að afar lítið hefur þokast í samkomulagsátt, hvorki við ríkisstjórnina né Seðlabankann.“

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, er einnig gagnrýninn á stjórnvöld. Á opnum fundi SA um sáttmálann sagði hann nauðsynlegt að hleypa lífi í fjárfestingar, bæði innlendra og erlendra aðila, til að koma landinu út úr kreppunni. Þá væri vaxtastig Seðlabankans allt of hátt og gjaldeyrishöft hamlandi. Þetta skapaði hættuna á nýrri kreppu sem gæti verið enn dýpri. Landsframleiðslan gæti dregist saman um að minnsta kosti sex prósent á næsta ári.

Á þriðjudaginn þarf að taka ákvörðun um hvort kjarasamningar SA og ASÍ verða framlengdir. Bæði Vilhjálmur og Gylfi kalla eftir aðgerðum stjórnvalda fyrir þann tíma. Annars geti þurft að segja samningum upp með tilheyrandi óróa á vinnumarkaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×