Innlent

Móðir nemanda dæmd til að greiða kennara 10 milljónir

Hæstiréttur dæmdi í dag, móður barns í Mýrarhúsaskóla, sem skellti hurð á höfuð kennara með þeim afleiðingum að hann hlaut örorku til að greiða kennaranum 9,7 milljónir króna í bætur vegna slyssins. Þar með staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp í málinu í mars í fyrra.

Atvikið átti sér stað árið 2005. Stúlkan, sem var þá ellefu ára gömul, hafði verið í kennslustund þegar hún tók upp á því að fela sig fyrir samnemendum sínum inni í vinnurými kennara sem er inn af skólastofunni. Nemandinn var að flýja einelti frá samnemendum sínum og þurfti kennarinn því að svipast um eftir henni.

Þegar kennarinn gægðist inn í vinnurýmið renndi nemandinn rennihurð fyrir opið með þeim afleiðingum að hurðin skall á höfuð kennarans. Kennarinn hlaut 25 prósenta varanlega örorku og krafði móður stúlkunnar og Seltjarnarnesbæ, sem rekur Mýrarhúsaskóla, um 9,7 milljónir króna í miskabætur. Seltjarnarnesbær var hins vegar sýknaður af bótakröfunni í Héraðsdómi og Hæstiréttur tók ekki efnislega afstöðu til þess þáttar málsins.

Auk miskabóta var móðirin dæmd til að greiða 1,5 milljónir i málskostnað. Rétt er að taka fram að það kemur í hlut Tryggingarmiðstöðvarinnar, sem er tryggingarfélag móðurinnar, að greiða kennaranum bætur.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×