Innlent

Líklega farið fram á áframhaldandi varðhald

Lögreglan á Suðurnesjum segir líklegt að farið verði fram á að flestir ef ekki allir grunaðir í mansalsmálinu svonefnda sitji áfram í gæsluvarðhaldi.

Fimm Litháar og tveir Íslendingar sitja í gæsluvarðhaldi, og eru taldir tengjast málinu á einn eða annan hátt. Málið hefur undið upp á sig en rannsókn þess hófst þegar kona frá Litháen lét öllum illum látum um borð í flugvél á leið til landsins. Hún reyndist vera með fölsuð skilríki og sagði hún að þvinga ætti hana til að stunda vændi á Íslandi.

Lögreglan telur nú að málið sé viðameira en talið var í fyrstu og nær rannsóknin til mansals, fjármunabrota, þjófnaða, ofbeldisbrota, fíkniefnabrota, skjalafals og peningaþvættis.

Jóhannes Jensson hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir að ákvörðun um áframhaldandi gæsluvarðhald liggi ekki endanlega fyrir og að enn sé verið að yfirheyra suma hinna grunuðu ennþá. Hann segist þó búast við því að krafa um frekara varðhald verði sett fram á flesta eða alla þá sem nú sitja inni. Fyrri gæsluvarðhaldsúrskurður rennur út klukkan fjögur í dag.

Fleiri hafa ekki verið handteknir í tengslum við málið en að sögn Jóhannesar er unnið í öllum öngum þess.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×