Innlent

Vill skoða hvort setja megi vegatolla

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Gunnarsson vill skoða hvort fara megi vegatollaleiðina. Mynd/ Vilhelm.
Jón Gunnarsson vill skoða hvort fara megi vegatollaleiðina. Mynd/ Vilhelm.
„Það verður með öllum ráðum að koma einhverjum framkvæmdum í gang í atvinnulífinu og til þess þarf að leita allra skynsamlegra leið," segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis greindi frá því á miðvikudaginn að vegatollur á allar stofnbrautir út úr Reykjavík, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Reykjanesbraut, væri nú til skoðunar í viðræðum stjórnvalda og lífeyrissjóða um fjármögnun á breikkun Suðurlandsvegar. „Mér finnst alveg að það megi skoða þessa leið," segir Jón. Hann tekur þó fram að það yrði þá að tryggja það að sú leið kæmi ekki fram sem einhver hreinn landsbyggðarskattur heldur myndi hún dreifast með nokkuð skynsömum hætti á notendurna. Vegatollar megi ekki verða íþyngjandi fyrir flutninga á landsbyggðina og fyrir það fólk sem þar býr.

„Þarf að skoða þessa leið ásamt öðrum möguleikum. En grundvallaratriðið er að á þessu sviði er hægt að fara í framkvæmdir með tiltölulega skömmum fyrirvara og skapa þannig atvinnu og til þess þarf að leita allra leiða. Og það þarf að forgangsraða verkefnum á þann hátt að það séu stórnotendaleiðir sem hafi forgang og ég er mjög hlynntur því að Suðurlandsvegurinn séu í forgangi i þeim samgönguframkvæmdum sem framundan eru," segir Jón Gunnarsson.


Tengdar fréttir

Vegtollar út frá Reykjavík í skoðun

Vegtollur á allar stofnbrautir út úr Reykjavík, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Reykjanesbraut, er nú til skoðunar í viðræðum stjórnvalda og lífeyrissjóða um fjármögnun á breikkun Suðurlandsvegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×