Innlent

Vefsjá talin stríða gegn lögum

Heimasíða Kópavogsbæjar. Íbúi í Kópavogi taldi innbrotsþjófa geta notfært sér upplýsingar í kortavefsjá bæjarins og henni hefur verið lokað á meðan Persónuvernd skoðar málið.
Heimasíða Kópavogsbæjar. Íbúi í Kópavogi taldi innbrotsþjófa geta notfært sér upplýsingar í kortavefsjá bæjarins og henni hefur verið lokað á meðan Persónuvernd skoðar málið.

„Enginn vafi er á því að hægt er að nota þessar upplýsingar í vafasömum tilgangi og engin ástæða til þess að þær séu aðgengilegar öllum,“ segir í umsögn Þórðar Clausen Þórðarsonar, bæjarlögmanns í Kópavogi, vegna kvörtunar um kortavefsjá á heimasíðu bæjarins.

Að því er fram kemur í umsögn Þórðar kvartaði íbúi í Kópavogi til Persónuverndar undan kortavefsjá á vefsetri bæjarins. Þar væri meðal annars hægt að nálgast teikningar af einkaheimilum manna, upplýsingar um fjölda íbúa í hverju húsi og aldur þeirra. „Að þessar upplýsingar séu aðgengilegar öllum, geti til dæmis verið gagnlegar fyrir innbrotsþjófa,“ vitnar bæjarlögmaður til ábendinga íbúans.

Þórður kvað það vart standast lög um persónuvernd og meðferð persónupplýsinga að vera með svo ítarlega upplýsingagjöf á vefsíðu bæjarins. Bæjarráð samþykkti tillögu hans um að loka kortavef­sjánni þar til afstaða Persónuverndar lægi fyrir og hefur það þegar verið gert. Ekki er ljóst hvenær niðurstaða Persónuverndar fæst.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×