Innlent

Lögfræðingar á Norður- og Austurlandi: lífsgæði verða skert

Héraðsdómur Austurlands.
Héraðsdómur Austurlands.

Aðalfundur félags lögfræðinga á Norður- og Austurlandi, sem haldinn var á Egilsstöðum 24. október síðastliðinn, var samþykkt ályktun sem mótmælir eindregið og varar við framkomnum hugmyndum um sameiningu og niðurlagningu ýmissa embætta sem nú starfa á landsbyggðinni.

Í ályktun félagsins segir að með þeim tillögum, sem að þessu sinni snúa að héraðsdómstólum, sýslumönnum og skattstjórum, sé alvarlega grafið undan þjónustu við íbúa landsbyggðarinnar og lífsgæði þar skert.

Þá segir orðrétt í ályktun félagsins: „Félag lögfræðinga á Norður- og Austurlandi vill ennfremur árétta, að nái tillaga um sameiningu héraðsdómstóla fram að ganga, er fyrirsjáanlegt að mjög muni fjara undan þeim lögmannsstofum sem nú starfa á landsbyggðinni en þeim fjölgaði er núverandi dómstólaskipan var tekin upp. Mjög mikilvægt er, að sem víðast á landsbyggðinni bjóðist heimamönnum öflug og vönduð lögmannsþjónusta sem stenst fyllilega samjöfnuð við það sem gerist annarsstaðar á landinu. Með framkominni tillögu er grundvellinum kippt undan þessum mikilvæga þætti víða á landsbyggðinni."

Að lokum andmælir félag lögfræðinga á Norður- og Austurlandi því að núverandi tímabundið efnahagsástand sé notað sem átylla til að koma að tillögum sem fyrst og fremst munu færa umsvif og þjónustu frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×