Innlent

Þrjátíu manns af Rúv í forgangshópi vegna svínaflensu

Rúv
Rúv
Þrjátíu starfsmenn Ríkisútvarpsins eru í forgangi í bólusetningu vegna svínaflensu. Ríkislögreglustjóri hafði beðið RÚV um lista yfir hverjir ættu að fá bólusetningu svo hægt væri að halda úti lágmarks útsendingu. Á listanum eru frétta- og tæknimenn undir fimmtugt. Nú þegar hafa flestir í hópnum verið bólusettir.

„Það var Öryggismálanefnd RÚV sem skilgreindi aðila í þennan hóp sem á að geta haldið úti lágmarksþjónustu og manna samhæfingarstöðina í Skógarhlíð samkvæmt okkar almannavarnarhlutverki," segir Jón Ingi Benediktsson formaður nefndarinnar í samtali við fréttastofu.

Jón Ingi segir að í hópnum séu fyrst og fremst fréttamenn og útsendingartæknimenn, engir stjórnendur eða yfirmenn séu í hópnum.

„Við miðuðum við að að þetta fólk ætti að vera innan við fimmtugt þar sem tölulegar staðreyndir sýna að fólk eftir fimmtugt fái þetta síður. Þarna var reynt að velja fjölhæft fólk sem gæti sinnt þessari lágmarksþjónustu," segir Jón Ingi.

Hann segir að hópurinn eigi að geta sent út fréttir allan sólarhringinn í viku til tíu daga ef allt fer hér á versta veg. Búið sé að sprauta stærsta hlut hópsins en þó ekki alla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×