Innlent

Sjóðsstjóri og miðlari fyrir rétt á morgun

Daníel Þórðarson, fyrrverandi sjóðsstjóri peningamarkaðssjóðs Kaupþings. Hann ásamt Stefni Inga Agnarsyni mæta fyrir dómara á morgun.
Daníel Þórðarson, fyrrverandi sjóðsstjóri peningamarkaðssjóðs Kaupþings. Hann ásamt Stefni Inga Agnarsyni mæta fyrir dómara á morgun.

Aðalmeðferð fer fram í sakamáli gegn fyrrverandi sjóðsstjóra peningamarkaðssjóðs Kaupþings og skuldabréfamiðlara sama banka á morgun. Sjóðsstjórinn, Daníel Þórðarson og skuldabréfamiðlarinn Stefnir Ingi Agnarsson, hafa verið ákærðir af ríkislögreglustjóra fyrir markaðsmisnotkun með því að búa til falska eftirspurn og hækka verð á skuldabréfum í Exista í janúar og febrúar á síðasta ári. Exista var þá aðaleigandi Kaupþings.

Mönnunum tveimur er gefið sök að hafa sett inn kauptilboð í skuldabréfaflokk Exista alls sex sinnum frá janúar til febrúar á síðasta ári. Um var að ræða fimm milljón króna kauptilboð í hvert skipti sem voru lögð fram í Kauphöll Íslands á mánaðartímabili. Tilboðið hafði áhrif á dagslokaverðið og þar með bjuggu þeir til falska eftirspurn auk þess sem verð bréfanna var misvísandi, eins og það er orðað í ákæruskjali.

Málið var þingfest í mars síðastliðnum. Það hefur því tekið málið um sjö mánuði að fara í aðalmeðferð.

Málið er eitt fyrsta sakamálið vegna brota í aðdraganda bankahrunsins sem hefur ratað fyrir héraðsdóm. Töluverð umræða hefur verið um að í undanfara bankahrunsins, hafi verðbréfamiðlarar reynt að halda gengi bréfa í stóru bönkunum þremur og öðrum félögum uppi, með svipuðum aðferðum og hér um ræðir. Verði Daníel og Stefnir sakfelldir þá geta þeir búist við fangelsi, allt að sex árum samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Aðalmeðferð fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×