Innlent

Fjölmennt jafnréttisþing sett á morgun

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra.

Á fimmta hundrað manns hafa skráð sig á jafnréttisþing sem Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, og Jafnréttisráð boða til og er haldið samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Drög að framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum verður kynnt á þinginu sem hefst klukkan níu í fyrramálið.

Á þinginu verður fjallað um fjölmargar hliðar jafnréttisbaráttunnar, svo sem launajafnrétti kynjanna, kynbundið ofbeldi, jafnrétti í atvinnulífi, karla og jafnrétti og jafnréttisstarf í skólum. Auk þess verða drög að framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum kynnt á þinginu, en tilgangur þess er meðal annars að gefa almenningi og fulltrúum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka kost á að skila inn hugmyndum og ábendingum vegna framkvæmdaáætlunarinnar.

Meðal ræðumanna á þinginu eru: Peter Tai Christensen embætti umboðsmanns jafnréttis í Svíþjóð, Þórólfur Árnason forstjóri Skýrr, Ólafur Stephensen ritstjóri Morgunblaðsins og Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.

Sex málstofur verða á þinginu og í lok þess verða forystumenn stjórnmálaflokkanna í pallborði. Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar, Helga Sigrún Harðardóttir alþingismaður Framsóknarflokki, Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins, Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×