Innlent

Arnarvarp heppnaðist vel

Björgun eins hafarnar á Íslandi skiptir máli þar sem stofninn er að rétta úr kútnum.
mynd/Náttúrustofa vesturlands
Björgun eins hafarnar á Íslandi skiptir máli þar sem stofninn er að rétta úr kútnum. mynd/Náttúrustofa vesturlands

Arnarvarp er talið hafa gengið ágætlega í vor samanborið við undanfarin ár. Samtals fundust hreiður 44 arnarpara en heildarfjöldi para í stofninum er um 65. Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands munu á næstu dögum fljúga yfir varpsvæði arna og kanna hverjir þeirra hafi komið upp ungum. Síðustu ár hafa oftast 23-25 pör komið einum til tveimur ungum á legg, þar af um þriðjungur tveimur ungum.

Þetta kemur fram á heimasíðu Náttúrustofu Vestur­lands en þar er jafnframt greint frá vel heppnaðri björgun ársgamals arnar sem nýlega fannst grútarblautur í Nátthaga við Berserkjahraun á Snæfellsnesi. Starfsmaður Náttúrustofunnar handsamaði örninn sem var fluttur í Húsdýragarðinn í Reykjavík þar sem fiðrið var þvegið. Erninum var síðar sleppt í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Hann var kraftmikill að sjá og tók flugið um leið og tækifæri gafst. Björgunin virðist því hafa borið góðan árangur.

Fuglamerkingar hafa verið stundaðar í meira en hundrað ár og hafa endurheimtur merktra fugla skilað miklum upplýsingum um lífshætti þeirra. Allir sem ná að mynda erni eru hvattir til að senda myndirnar til frekari skoðunar á Náttúrustofu Vesturlands eða Náttúrufræðistofnun Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×