Innlent

Niðurstöðu að vænta í máli séra Gunnars

Karl Sigurbjörnsson, biskup.
Karl Sigurbjörnsson, biskup. Mynd/Pjetur
Mál séra Gunnars Björnssonar er komið inn á borð Karls Sigurbjörnssonar biskups og er ákvörðunar að vænta. Gunnar hefur verið í leyfi frá störfum sem prestur á Selfossi frá því hann var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn sóknarbörnum sínum vorið 2008. Biskupsstofa hefur ítrekað framlengt leyfið en það rennur út næstkomandi fimmtudag. Ákveði biskup ekki annað getur Gunnar snúið til baka í lok vikunnar sem sóknarprestur á Selfossi.

Árni Svanur Daníelsson, verkefnisstjóri hjá Biskupsstofu, segir að ekki liggi fyrir nein ákvörðun, en málið sé á borði biskups.

Séra Gunnar var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum úr söfnuði sínum. Málið fór fyrir héraðsdóm og Hæstarétt þar sem hann var sýknaður. Þó var talið sannað að Gunnar hefði sýnt þá háttsemi sem ákært var fyrir, en hún var hins vegar ekki talin falla undir kynferðislega áreitni né ósiðlegt athæfi.

Úrskurðarnefnd Þjóðkirkjunnar komst af þeirri niðurstöðu í byrjun september að Gunnar hafi gerst sekur um ótvírætt siðferðisbrot en ekki agabrot. Þá hafnaði nefndin kröfu sóknarnefndar um að Gunnar fái ekki að snúa aftur til starfa í Selfosskirkju sem sóknarprestur. Hvorki sóknarnefndin né Gunnar áfrýjuðu úrskurðinum en frestur til þess rann út síðastliðinn fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×