Erlent

Jesú-kynskiptingur vekur bræði í Glasgow

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ekki eru allir á eitt sáttir um þessa túlkun leikritshöfundarins Jo Clifford.
Ekki eru allir á eitt sáttir um þessa túlkun leikritshöfundarins Jo Clifford.

Leikrit sem nú er sýnt í Glasgow og sýnir Jesú sem kynskipting hefur vakið reiðiöldu.

Þarna er um að ræða verkið Jesús himnadrottning eða Jesus, Queen of Heaven en það fjallar um Jesús sem er karlkyns en þráir að verða kona. Uppfærslan er hluti af hátíð samkynhneigðra í Glasgow sem gengur undir því frumlega nafni Glasgay og segja aðstandendur hennar að alls ekki hafi verið ætlunin að ofbjóða fólki eða móðga það með tiltækinu. Það ætlunarverk hefur þó ekki skilað sér fullkomlega þar sem um 300 manns komu saman utan við Tron-leikhúsið í Glasgow og kveiktu á kertum til að mótmæla söguþræði leikritsins.

Höfundur leikritsins er Jo Clifford en hann er reyndar sjálfur kynskiptingur svo áherslur handritsins ættu ekki að koma neinum á óvart. Steven Thomson, einn af aðstandendum Glasgay, segir leikritið vera bókmenntaverk sem endurspegli trúarlega upplifun höfundarins sjálfs og tengsl hennar við kynhneigð hans. Við þetta sé ekkert óeðlilegt. Fleiri virðast taka í sama streng þar sem listaráð Skotlands styður hátíðina auk borgarráðs Glasgow og markaðsráðs borgarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×