Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn sveik ítrekað gefin loforð

Framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar segir að forysta Sjálfstæðisflokksins hafi ítrekað gefið loforð um uppstokkun í Seðlabankanum en svikið öll fyrirheit þar af lútandi annað hvort vegna þess að þeir höfðu ekki til þess pólitískan vilja eða afl.

Geir H. Haarde fráfarandi forsætisráðherra sagði á fundi með Sjálfstæðismönnum á Grand hóteli á föstudag að leiðtogar Samfylkingarinnar hafi sett á svið leikrit um síðustu helgi og þóst vilja framlengja líf ríkisstjórnarinnar þegar forystan hafi í raun verið langt komin með myndun ríkisstjórnar með Vinstri grænum.

Skúli Helgason framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar sagði hins vegar í Íslandi í dag á föstudagskvöld, að Samfylkingin hafi sýnt Sjálfstæðisflokknum mikið langlundargeð. Allt frá því skömmu eftir bankahrunið í byrjun nóvember hafi Samfylkingin þrýst á Sjálfstæðismenn um aðgerðir.

Skúli segir þessar aðgerðir hafa snert fjármálakerfið í landinu, heimilin og tiltekt í stjórnkerfinu, sem hafi verið mikil krafa um innan Samfylkingarinnar og í samfélaginu í heild. Geir sagði á föstudag að Samfylkingin hafi látið stjórnast af hatri á einum manni, og dylst engum að þar átti hann við Davíð Oddsson seðlabankastjóra. Skúli segir þetta af og frá.

Samfylkingin hafi strax í nóvember krafist þess að bankastjórn Seðlabankans yrði skipt út til að endurvinna traust.Fyrst í stað hafi Sjálfstæðismenn gefið lítil sem engin svör.

Geir hefur hins vegar fullyrt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið tilbúin til að fallast á breytingar í Seðlabankanum, en krafa Samfylkingarinnar um forsætisráðherraembættið hafi að lokum orðið til þess að stjórnin sprakk.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×