Innlent

Veiðum á okkar forsendum

Sighvatur Bjarnason VE. Íslenski flotinn veiddi 116 þúsund tonn af makríl í íslenskri lögsögu í sumar.
fréttablaðið/hari
Sighvatur Bjarnason VE. Íslenski flotinn veiddi 116 þúsund tonn af makríl í íslenskri lögsögu í sumar. fréttablaðið/hari

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra segir að íslensk stjórnvöld séu knúin til að taka einhliða ákvörðun um makríl­veiðar fyrir næsta ár. Ástæðan sé sú að aðrir sem veiða úr makrílstofninum, sem eru Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar, neita að viðurkenna rétt Íslands til að taka þátt í að ákveða leyfilegan heildarafla og skiptingu hans.

Í fréttatilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu segir að í ljósi þess að löndin þverskallist við að viðurkenna rétt Íslands sé ekki önnur fær leið en að taka einhliða ákvörðun um kvóta. Ákvörðunin verði tekin með tilliti til makrílveiða íslenska flotans síðustu ár, og jafnframt vaxandi útbreiðslu makríls innan íslensku efnahagslögsögunnar.

Íslensk stjórnvöld hafa árum saman, en án árangurs, leitað eftir því að taka þátt í heildarstjórnun makrílveiða. Því hefur verið hafnað með þeim rökum að lítinn sem engan makríl sé að finna í íslenskri lögsögu. Íslensk skip veiddu 112 þúsund tonn af makríl í íslenskri lögsögu í fyrra og svipað magn í ár.

Ráðherra skipaði vinnuhóp í ágúst sem er ætlað að fara yfir makrílveiðar íslenskra skipa og vinna tillögur um hvernig veiðum og vinnslu verður best háttað. Veiðar og vinnsla undanfarinna ára hafa aðeins skilað broti af þeim verðmætum sem unnt er að fá úr þeim afla sem veiddur hefur verið. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×