Innlent

Sjálfsskoðun á brjóstum gagnlítil í baráttu gegn krabbameini

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Forstjóri Krabbameinsfélagsins, Guðrún Agnarsdóttir, furðar sig á að læknaráð bandarískra stjórnvalda vilji leggja af hópleit að brjóstakrabbameini hjá konum undir fimmtugu. Guðrún tekur þó undir með læknaráðinu að sjálfsskoðun kvenna á brjóstum sínum - sem konum hefur í áraraðir verið innrætt að stunda - sé gagnslítil.

Flestar fullvaxta konur á Íslandi vita að minnsta kosti þrennt um konur og krabbamein. Að maður skal mæta í skimun fyrir leghálskrabba frá tvítugu, fertugur fer maður í fyrstu brjóstakrabbaskoðun og síðan skal maður reglulega þreifa brjóstin í leit að hnútum, helst einu sinni í mánuði. Í vikunni kom svo fram í Bandaríkjunum yfirlýsing frá starfshópi þarlendra vísindamanna, læknaráð sem skipað er af bandarískum stjórnvöldum, sem sagði að konur milli fertugs og fimmtugs skyldu ekki fara í brjóstakrabbaskoðun og að sjálfsskoðun brjósta væru gagnslausar.

Yfirlýsing læknaráðsins vakti hörð viðbrögð lækna og krabbameinsfélaga - heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna lýsti því yfir tveimur dögum síðar að ekki yrði vikið frá þeirri stefnu að byrja leitina við fertugt.

Engu verður breytt við þessi tíðindi í íslenskri brjóstakrabbaleit og telur forstjóri Krabbameinsfélagsins að ályktun bandaríska læknaráðsins snúist um sparnað.

Fjöldi kvenna undir fimmtugu greinist með brjóstakrabbamein á hverju ári á Íslandi, að meðaltali fjörtíu konur á ári síðastliðin fimm ár, á móti um 135 konur yfir fimmtugu. Raunar fær um það bil tíunda hver kona brjóstakrabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×