Erlent

Færeyingur skotinn í Kaupmannahöfn

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Þrjátíu og tveggja ára færeyskur karlmaður liggur alvarlega særður á Ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn eftir skotárás við Mjølnerparken á Norðurbrú í gærkvöldi.

Danskir miðlar hafa eftir lögreglu að maðurinn hafi verið á leið á tónleika og setið í bíl sínum þegar tveir eða þrír menn hafi hjólað framhjá og skotið á hann.

Skömmu síðar voru tveir menn handteknir vegna árásarinnar en þeir látnir lausir í morgunsárið. Ódæðismannanna er því enn leitað.

Í fyrstu taldi lögregla að árásin tengdist átökum glæpagengja í Kaupmannahöfn. Danska útvarpið hefur eftir lögreglu að síðan hafi komið í ljós að fórnarlambið tengdist ekki neinum glæpasamtökum og því líklegt að árásarmennirnir hafi farið mannavilt. Árásin í gær er önnur slík á rétt rúmum sólahring.

Á föstudagskvöldið var hálf þrítugur karlmaður af íröskum ættum skotinn til bana á Norðurbrú. Síðan í ágúst hafa verið gerðar tuttugu og sjö skotárásir tengdar átökum glæpagengja í Kaupmannahöfn og næsta nágrenni og lögregla því hert eftirlit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×