Íslenski boltinn

Óskar Örn áfram hjá KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Óskar Örn Hauksson í leik með KR.
Óskar Örn Hauksson í leik með KR. Mynd/Stefán

Óskar Örn Hauksson skrifaði í hádeginu í dag undir nýjan þriggja ára samning við KR. Þetta staðfesti Rúnar Kristinsson, yfirmaður íþróttamála hjá félaginu, í samtali við Vísi.

Óskar kom til KR frá Grindavík fyrir þremur árum síðan og hefur síðan þá spilað 68 leiki í deild og bikar með félaginu og skorað í þeim ellefu mörk.

Hann hefur spilað nánast alla deildarleiki liðsins síðustu tvö ár en hann missti af aðeins einum leik í sumar.

„Það eru frábærar fréttir fyrir KR að Óskar Örn verði áfram hjá félaginu," sagði Rúnar. „Björgólfur skrifaði undir nýjan samning í gær og því útlit fyrir að litlar breytingar verði á leikmannahópnum okkar. Það hefur verið stefna KR í mörg ár að haga þannig að málum."

Jónas Guðni Sævarsson fór í atvinnumennsku í sumar og útlit er fyrir að Stefán Logi Magnússon fari sömu leið. Þá tók Guðmundur Benediktsson við liði Selfoss í gær og Prince Racjomar fór einnig frá liðinu í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×