Innlent

Lundaveiðar leyfilegar í fimm daga

Lundi.
Lundi.

Nú í hádeginu verður haldinn fundur í umhverfis- og skipulagsráði Í vestmannaeyjum en þar mun samningur verða lagður fram varðandi lundaveiðar. Náttúrustofa Suðurlands telur stofninn í mögulegri útrýmingarhættu og hefur lagt til algjört veiðistopp.

Í samningnum sem verður lagður fram á fundinum í hádeginu er lagt til að lundaveiðar verði bannaðar með öllu fyrir utan fimm daga. Það er á tímabilinu 25. - 26. júlí.

Áður var veiðitímabilið 55 dagar en nú er lagt til að það verði fimm dagar.

Þá mun Náttúrustofa Suðurlands halda ráðstefnu í haust um rannsóknir sínar á lundastofninum og þær kynntar áhugasömum.

Þá segir í samningi að Félag bjargveiðimanna lofi ábyrgum veiðum og þeir muni upplýsa Náttúrustofu Suðurlands um veiðar sínar í lok veiðitímabils.

Samkvæmt Elliða Vignissyni, bæjarstjóra Vestmannaeyja, þá má fastlega gera ráð fyrir því að samningurinn verði samþykktur á eftir.

Hann segir ennfremur að það sé óásættanlegt að horfa upp á sjófuglastofna hrynja án aukinna rannsókna.

„Þekkingarsetur Vestmannaeyja og Náttúrustofa Suðurlands eru tilbúin til að axla ríka ábyrgð í slíkum rannsóknum ef fjármagn til þeirra rannsókna verður tryggt," segir Elliði um kostnað við verndun og rannsóknir stofnsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×