Íslenski boltinn

Fáum stundum háðsglósur frá áhorfendum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Benediktsson, KR.
Guðmundur Benediktsson, KR.

Það vakti óneitanlega athygli að íþróttafréttamennirnir Hjörtur Hjartarson og Guðmundur Benediktsson voru báðir á skotskónum með sínum liðum í Pepsi-deild karla á sunnudagskvöldið.

Bæði mörkin þóttu einkar lagleg og segir Hjörtur að hann sé það gamall í hettunni að svona afgreiðsla á knettinum gerist sjálfkrafa. „En þetta er nú samt töluvert mál fyrir svona gamlan og þungan mann," sagði Hjörtur í léttum dúr.

Guðmundur skoraði með skalla sem hann segir að hafi verið dýrmætt fyrir sig persónulega.

„Það voru tveir menn búnir að veðja við mig að mér myndi ekki takast að skora með skalla í sumar. Ég ákvað því að henda mér niður í boltann og afgreiða þetta mál strax," sagði hann og hló.

Báðir segjast þeir mæta skilningi hjá sínum yfirmönnum til þess að sinna fótboltanum en Hjörtur vinnur hjá RÚV og Guðmundur hjá Stöð 2 Sporti.

„Þetta getur verið erfitt þar sem mesta vinnan er á kvöldin og þá helst á sama tíma og æfingar og leikir eru. Þá er einnig fótboltinn stærsta íþróttin á Íslandi og því erfitt fyrir mig að þurfa að sniðganga alveg íslenska fótboltann í vinnunni," sagði Hjörtur.

Báðir játa þeir því að hafa fengið aðeins meiri athygli en aðrir knattspyrnumenn vegna starfa sinna. „Aðallega eru áhorfendur að spyrja mig hvort ég vilji ekki bara lýsa leiknum en ég hef nú yfirleitt gaman af því," sagði Guðmundur.

Samskipti Hjartar og Ólafs Jóhannessonar landsliðsþjálfara hafa vakið athygli á blaðamannafundum KSÍ fyrir landsleiki. Ólafur hefur haft það á orði að Hjörtur eigi ekki lengur möguleika á landsliðssæti. Hjörtur svarar þó fyrir sig nú í gamansömum tóni.

„Ég hélt nú að mín leið í landsliðið væri greið eftir að Óli tók við enda vorum við saman hjá Skallagrími á sínum tíma. En annað hefur komið á daginn. Svo þegar ég spyr hann hvort hann hafi verið duglegur að mæta á Þróttaraleiki segist hann ekki nenna því.

Ég þurfi hins vegar bara að leggja inn á hann og þá kemst ég inn. Landsliðsdraumurinn minn er þó enn á lífi - ég þarf bara að vera duglegur að safna."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×