Lífið

Lögregla keyrði á tónlistarmann

Árni segir sárt að uppskera bíl í fangið og kylfu í bakið fyrir friðsamleg mótmæli.
Árni segir sárt að uppskera bíl í fangið og kylfu í bakið fyrir friðsamleg mótmæli. MYND/fréttablaðið/valli
„Ég stóð þarna og var að láta skoðun mína í ljós, án ofbeldis af nokkru tagi, og uppskar lögreglubíl í fangið og kylfu í bakið,“ segir Árni Rúnar Hlöðversson, tónlistarmaður og meðlimur í hljómsveitinni FM Belfast. Árni segir lögreglubíl með fanga innanborðs hafa keyrt á sig á leið frá Alþingishúsinu í mótmælunum á þriðjudag.

„Ég stóð þarna við húsið sem er við hliðina á Alþingishúsinu og stillti mótmælum mínum algjörlega í hóf, ég kastaði engu og lyfti ekki hendi. Þá keyrði lögreglubíll í ofboði á mig og þegar hann var horfinn komu á vettvang aðrir lögregluþjónar sem börðu mig í bakið með kylfum,“ segir Árni og bætir við að hann hafi fengið áverkavottorð á slysadeild og ætli sér að kæra atvikið. „Ég er ekki lífshættulega slasaður, en ég er bólginn á öxlum. Ég hvet alla sem lent hafa í svipuðu til að kæra, þótt vonin um árangur af slíku sé ekki mikil. Kærufjöldinn skiptir líka miklu máli.“

Árni segir lögregluna hafa misst gjörsamlega stjórn á sér fyrir framan Alþingishúsið. „Þeim fannst eins og allir væru að ógna sér, en sú var ekki raunin. Það er ansi sárt að ætla sér að mótmæla á friðsaman hátt og verða fyrir svona árás í staðinn,“ segir Árni Rúnar Hlöðversson. - kg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.