Innlent

Jóhanna í FT: Bretar særðu Íslendinga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir er harðorð í garð Breta, Hollendinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Mynd/ Stefán.
Jóhanna Sigurðardóttir er harðorð í garð Breta, Hollendinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Mynd/ Stefán.
Jóhanna Sigurðardóttir gagnrýnir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og bresk og hollensk stjórnvöld harðlega fyrir að tefja fyrir efnahagsbata á Íslandi í breska blaðinu Financial Times.

Forsætisráðherra, segir í skriflegu svari við spurningum Financial Times, að það sé óásættanlegt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi tafið endurskoðun efnahagsáætlunarinnar mánuðum saman. Endurskoðunarinnar sé krafist til þess að Íslendingar geti fengið þau lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem lofað hafi verið.

Jóhanna gagnrýnir jafnframt Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, fyrir ákvörðun hans fyrir ári síðan að beita hryðjuverkalögum til að frysta eigur Íslendinga. Þetta hafi orðið til þess að dýpka kreppuna á Íslandi og skaða samskipti milli tveggja ríkja Atlantshafsbandalagsins. „Að stimpla vini sína og bandamenn til langs tíma sem hryðjuverkamenn er eitthvað sem við munum varla gleyma. Það særir," er haft eftir Jóhönnu.

Þá sagði Jóhanna að það væri ósanngjarnt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Norðurlöndin skilyrtu lán sín til Íslendinga við lausn á Icesave deilunni. Hún vonaðist þó til að endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins yrði tekin fyrir á næstu vikum.

Þá sagði Jóhanna að bresk og hollensk stjórnvöld gætu ekki þvegið hendur sínar af því gallaða reglugerðaverki sem leiddi til þess að það fór sem fór hjá Landsbankanum í Bretlandi og Hollandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×