Innlent

Keflavíkurflugvöllur annar besti í Evrópu

Þjónusta við farþega á Keflavíkurflugvelli er fyrsta flokks að mati farþega sem völdu hann annan besta flugvöll í Evrópu á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá vellinum. Þar segir að alþjóðasamtök flugvallarekenda, Airports Council International, standi fyrir ítarlegri þjónustukönnun flugfarþega á helstu flugvöllum heims og var Keflavíkurflugvöllur valinn þriðja besta flughöfn í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi og var í fjórða sæti fyrir allt árið í fyrra.

Könnunin er gerð á um 130 flugvöllum um allan heim og svara farþegar spurningum um gæði rúmlega 30 þjónustuþátta. Niðurstöður eru birtar ársfjórðungslega og heildarárangur árlega.

„Keflavíkurflugvöllur hefur um allangt skeið verið í fremstu röð flugvalla í Evrópu í könnuninni og hafnaði nú í öðru sæti en var í þriðja sæti á fyrsta ársfjórðungi þess árs. Humbersideflugvöllur í Bretlandi er í fyrsta sæti að þessu sinni en hann er í fyrsta sinn með í könnuninni," segir einnig í tilkynningunni. Um breska flugvöllinn fara árlega um hálf milljón farþega en tæpar tvær milljónir um Keflavíkurflugvöll var mjög mjótt á munum í könnuninni.

„Árangurinn nú er sá besti sem Keflavíkurflugvöllur hefur náð og nokkuð betri en árangur Portoflugvallar í Portúgal og Zurichflugvallar í Sviss sem vermt hafa tvö efstu sætin undanfarin ár," segir að lokum.

Keflavíkurflugvöllur var einnig í fyrsta sæti evrópskra flughafna í nokkrum þjónustuflokkum á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, í þriðja sæti í heildaránægju farþega og áttunda besta flughöfn í heimi í flokki með færri en 5 milljónir farþega.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×