Innlent

Mikil óvissa er um orkuna á Reykjanesi

Virkjað á Reykjanesi. Orkumálastjóri telur óheppilegt að ræða um að öll orka fyrir álver í Helguvík komi frá Reykanesinu, enda séu miklir óvissuþættir tengdir jarðhitanum.Fréttablaðið/valli
Virkjað á Reykjanesi. Orkumálastjóri telur óheppilegt að ræða um að öll orka fyrir álver í Helguvík komi frá Reykanesinu, enda séu miklir óvissuþættir tengdir jarðhitanum.Fréttablaðið/valli

Mikil óvissa ríkir um hve mikla orku úr jarðhita er að finna á Reykjanesinu og það er óheppilegt þegar rætt er um að öll orka fyrir álverið í Helguvík þurfi að koma af Reykjanesinu sjálfu, segir Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri. Slík nálgun leiði ekki af sér sjálfbæra nýtingu jarðhitakerfisins.

„Við viljum ekki endilega taka eitt eða tvö jarðhitasvæði og fullnýta þau fyrir eitthvert eitt iðn­fyrirtæki. Við viljum hafa fleiri svæði á landinu undir, þar sem er verið að virkja og þróa sig áfram hverju sinni. Við viljum byrja á því að virkja fleiri jarðhitakerfi og gera það hægar. Eftir því sem við virkjum þau hægar þeim mun betra. Við virkjum minni áfanga í einu og lærum á svæðið áður en við bætum við,“ segir hann.

Annað myndi gilda ef um vatnsaflsvirkjanir væri að ræða, þar sem orkuöflun úr þeim megi reikna auðveldlega út.

„En það er í raun ekkert vitað [um orkumagnið] fyrr en byrjað er að virkja. Ef við skoðum virkjunarsögu Hengilsins sýnir hún að sum verkefni hafa gefið minna af sér en spár gerðu ráð fyrir, en önnur meira,“ segir Guðni. „Það eina sem við höfum á að byggja er reynsla okkar þaðan sem nú þegar er búið að virkja.“

Reynslan af jarðhitavirkjunum síðustu tíu ára eða svo gefi þó tilefni til bjartsýni. Hún hafi gengið mjög vel.

„Við höfum fengið meira úr jarðhitavirkjunum frekar en hitt, þótt það hafi verið breytilegt í einstökum virkjanaáföngum. Við getum sagt að þegar við förum að virkja svæðin sjáum við meiri möguleika í þeim en áður,“ segir hann. klemens@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×