Innlent

Nágranninn mætti með haglabyssu

Frá vettvangi
Frá vettvangi Mynd/Anton
Íbúi í kjallara mannsins sem varð fyrir árás byssumanns aðfaranótt sunnudags, mætti sjálfur á vettvang með haglabyssu þegar hann varð var við lætin á efri hæðinni. Árásarmaðurinn var þá á bak og burt.

Líkt og fram hefur komið í fréttum var bankað upp á hús í Breiðholti aðfaranótt sunnudags. Þegar íbúinn kom til dyra stóð þar maður vopnaður haglabyssu sem sló til hans með byssuskaftinu.

Íbúinn náði að loka útidyrahurðinni en þá hleypti maðurinn fimm haglabyssuskotum af, en skotin höfnuðu í hurðinni auk þess sem gluggi í forstofu brotnaði. Með byssumanninum var kærasta hans, sem er fyrrverandi starfsmaður íbúans.

Hann hafði skömmu áður sagt henni upp störfum í bakarí þar sem hann er yfirmaður. Þegar nágranni mannsins, og vinnufélagi, heyrði byssuhvellina reif hann upp haglabyssu sem hann á og fór á vettvang.

Árásarmaðurinn var hinsvegar á bak og burt þegar hann mætti á svæðið. Árásarmaðurinn var síðan handtekinn daginn eftir og úrskurðaður í gæsluvarðhald í kjölfarið. Yfirheyrslur yfir honum hafa staðið yfir og vinnur lögreglan úr þeim gögn sem hún aflaði á vettvangi að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar hjá rannsóknardeildinni. Árásarmaðurinn er nú vistaður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, en gæsluvarðhaldi yfir honum rennur út á föstudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×