Innlent

Deilt innan flokka um Reykjavíkurvöll

Birkir Jón Jónsson
Birkir Jón Jónsson

Samfylkingin talar tungum tveim um málefni Reykjavíkurflugvallar, því samgönguráðherra segir eitt en fulltrúi flokksins í samgöngunefnd annað.

Svo mælti framsóknarmaðurinn Birkir Jón Jónsson á Alþingi á miðvikudag. Hann sagði völlinn gríðarlega mikilvægan fyrir landsbyggð sem og höfuðborg. Því vildi hann vita hvort Samfylking gengi hér í takt.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrnefndur fulltrúi Samfylkingar í samgöngunefnd og eitt sinn borgarstjóri, svaraði Birki með því að skiptar skoðanir væru um málið innan allra flokka. Bæði innan Samfylkingar og Framsóknar. Framsókn í borginni segði að völlurinn skyldi hverfa, en á landsvísu að hann ætti að vera.

Birkir Jón sagði þá að Framsókn vildi völlinn á sínum stað.

Jón Gunnarsson úr Sjálfstæðisflokki kvaddi sér hljóðs seinna í þessum ræðum um störf þings og sagðist vilja hafa völlinn um kyrrt. Sú væri skýr stefna Sjálfstæðisflokksins, þótt aðrar skoðanir væru í borgarstjórnarflokki hans. Svo væri oft í stórum flokkum.

Jón viðraði áhyggjur sínar af uppbyggingu í Vatnsmýrinni og lagði til að flugstöð yrði endurbyggð en samgöngumiðstöð sett í jaðarbyggðir eða við stofnbrautir.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og áður borgarfulltrúi, kvað þá Jón Gunnarsson hafa staðfest að skiptar skoðanir væru innan Sjálfstæðisflokks um borgarskipulag.

„Það er ekki samhljómur á milli okkar hvað hin ýmsu mál varðar, það er algjörlega deginum ljósara, þannig að ég ætla ekki að eyða tíma mínum hér í að fara yfir það," sagði Guðlaugur í léttum dúr.- kóþ

Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Jón Gunnarsson


Guðlaugur Þór Þórðarson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×