Innlent

Bið eftir ættleiðingu lengist

Ættleiðing tók eitt til tvö ár fyrir nokkrum árum. Nú þurfa tilvonandi foreldrar að bíða í allt að fjögur ár. Líklegra er að biðtíminn lengist en styttist.
fréttablaðið/getty
Ættleiðing tók eitt til tvö ár fyrir nokkrum árum. Nú þurfa tilvonandi foreldrar að bíða í allt að fjögur ár. Líklegra er að biðtíminn lengist en styttist. fréttablaðið/getty

Biðtími eftir ættleiðingum frá erlendum ríkjum er nú þrjú til fjögur ár. Fyrir nokkrum árum var biðtíminn mun styttri, eða um eitt til tvö ár. Þetta kemur fram í meistararitgerð í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík eftir Ólöfu Marínu Úlfarsdóttur.

Ísland hefur verið aðili að Haag-samningi um samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa frá 2000. Helsta markmið samningsins var að stytta bið eftir erlendum börnum til ættleiðingar. Markmiðið hefur ekki náðst, að mati Ólafar. Þróunin sé frekar í hina áttina. „Biðtíminn er svo langur af því miklu meiri eftir­­spurn er eftir ættleiðingu heldur en framboð af börnum,“ segir hún.

Ragna Árnadóttir dómsmála­ráðherra segir vandamálið ekki séríslenskt heldur alþjóðlegt og aðallega til komið vegna þess hve langan tíma umsóknirnar taka ytra. Ragna segir það undir ættleiðingarfélögum komið að afla nýrra sambanda við erlend ríki. Stjórnvöld búi aðeins til lagaumgjörðina, en geri það sem þau geta til að styðja við bakið á félögunum.

„Með því að afla nýrra sambanda gætu félögin opnað á ættleiðingarleiðir sem ekki eru til staðar í dag,“ segir Ragna. Þannig gæti biðtíminn styst.

Karen Rúnarsdóttir, gjaldkeri ættleiðingarfélagsins Alþjóðlegrar ættleiðingar, hefur sjálf verið á biðlista hjá Íslenskri ættleiðingu frá því í október 2005 vegna ættleiðingar frá Kína. Alþjóðleg ættleiðing var stofnuð síðasta haust og hefur það að markmiði að opna á samninga við fleiri lönd en verið hefur á Íslandi. Nýlega var gengið frá samningum við Pólland.

Karen veit ekki hvenær kemur að sér. „Kínverjar gefa þá skýringu á biðinni að betra ástand sé í landinu og gefin séu færri börn til ættleiðingar,“ segir Karen. Þá hafi innlendum ættleiðingum þar fjölgað.

Hún segir að með þessu áframhaldi geti Íslendingar verið að horfa upp á enn lengri meðaltíma, allt upp í fimm ár. „Það eina sem maður getur gert er að fylgjast með og bíða. Mér sýnist ég vera að horfa upp á eitt og hálft til tvö ár til viðbótar.“- vspAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.