Innlent

Lögreglan mætti ekki á pókermótið

„Þetta hefur gengið eins og lygasögu. Pókerinn er orðinn gríðarlega vinsæll hérna á Íslandi og það komust færri að en vildu," segir Jóhann Ólafur Schröder, einn skipuleggjenda Íslandsmótsins í póker, sem haldið var um helgina.

„Ég veit ekki nákvæmlega hversu mörgum þurfti að vísa frá en sem dæmi get ég nefnt að það voru yfir þrjátíu ósvöruð símtöl á símanum mínum kvöldið áður en mótið hófst. Ég geri ráð fyrir að flest þeirra hafi haft að gera með mótið," segir Jóhann. Hann nefnir einnig að fullur salur af fólki hafi fylgst með síðari degi mótsins á Hilton Nordica-hótelinu.

Fyrir mót höfðu aðstandendur boðið lögreglu að líta við til að ganga úr skugga um að allt færi eftir settum reglum. „Við höfum verið í góðu samstarfi við yfirvöld og lögreglu, en löggurnar létu ekkert sjá sig. Enda flokkast þetta ekki undir fjárhættuspil heldur svokallaðan móta-póker, sem er allt annars eðlis," segir Jóhann.

Stefnt er á að endurtaka leikinn að ári.- kg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×